Monday, November 30, 2009

Some like it hot

Við horfðum á Some like it hot (1959) um daginn í kvikmyndatímanum. Mér fannst þessi mynd nokkuð góð, minnti mig á mynd sem ég horfði oft á þegar ég var lítill pjakkur, Blazing Saddles (1974) með Mel Brooks og félögum. Veit ekki alveg af hverju því þessar myndir eru eiginlega ekkert líkar. Það hlaut að vera samstarf Jerry(Daphne) og Joe(Josephine) sem minnti mig á þá Jim og Bart. Allavega, þá fannst mér þessi mynd fyndin og skemmtileg, ein af fimm myndum í þessum kvikmyndatímum sem ég hef haft gaman að en hinar fjórar voru Cats of Mirikitani, Casablanca, Chinatown og Citizen Kane.

-

Þessi mynd var leikstýrð af Billy Wilder sem ég kannast ekki alveg nógu mikið við. Þetta er svart/hvít mynd með skemmtilegum söguþræði en ég held ég þurfi ekkert að fara nánar í hann því þeir sem eru mögulegir að lesa þetta blogg hafa séð myndina. Aðalleikarar myndarinnar voru þau Marilyn Monroe(Sugar Kane), Tony Curtis(Joe/Josephine) og Jack Lemmon(Jerry/Daphne). Þau stóðu sig öll með prýði. Monroe með sína kynþokkafullu takta hér og þar en mér finnst merkilegt að sjá hvernig staðlaða formið á flottum líkama hefur breyst frá 1960 til dagsins í dag, sérstaklega hjá kvenmönnum. Monroe var ein flottasta kona síns tíma, allar vildi vera eins og hún en nú snýst það bara um að vera eins grönn og hægt er og með sílíkon. Sjálfur mundi ég velja konu á við Monroe en það er bara ég. Þeir Tony og Jack stóði sig einnig vel og náðu vel saman. Þeir voru “flottir” sem konur en það var ótrúlegt hvað Jack, þegar hann var í gervi sem Daphne, var líkur Jókernum úr Batman þegar hann brosti.

-

Það var eitt sem ég tók strax eftir við þessa mynd, að hún var enn fyndin. Það gerist með nokkrar myndir(gott dæmi Blazing Saddles) að þær verða ófyndnari með tímanum en þessi hélt dampi allan tíman. Ég skemmti mér vel yfir henni. Það voru nokkur flott(skemmtileg er kannski betra orð yfir það, veit ekki alveg) atrið í þessari mynd. T.d. atriðið þegar allar stelpurnar hittast í lestarbásnum hennar Daphne um kvöldið og atriðið með Sugar og Junior(Joe) á bátnum. Fyrra atriðið var fyndið, mikið að gerast inn í rammanum, allt á iðið og þær birtast allar bara allt í einu og hverfa jafn fljótt. Seinna atriðið og aðdragandi að því voru flottar senur. Joe á hjóli að keppast við komast fyrr en Sugar að bátnum og þau saman á bátnum, eiga saman heita kvöldstund. Eitt sem er alveg ómissandi í eldri grínmyndir, og vantar ekki í þessa, er eltingaleikur þar sem vondu kallarnir eru að reyna ná söguhetjunum en þær ná alltaf rétt að sleppa á ótrúlegan hátt þar sem vondu kallarnir eru sýndir sem nautheimsk vöðvatröll og láta gabba sig hvað eftir annað. Alveg fyrirsjánlegt en samt gaman að þessu, ég hlóg að minnsta kosti.

-

Tónlistin í myndinni er ekkert framúrskarandi, rétt eins og myndin sjálf. Hún er bara þarna til staðar en mér finnst tónlist ekki skipta jafn miklu máli í grínmyndum eins og í hasar- og spennumyndum. Það er nokkuð um frekar langar tökur sem gera myndina enn skemmtilegri en það er eitthvað sem vantar í nýlegar myndir. Mér finnst það gefa atriðinu meira líf og meiri trúverðlugleika að hafa það lengra, án þess að klippa ótal skot frá ótal stöðum inn á milli. Mér finnst líka fyndið við þessa mynd hvað Jack og Tony eru ekkert líkir konum í gervunum sínum en samt trúa allir því að þeir eru konur. Það er bara einn af mörgum hlutum sem gera þessa mynd svona skemmtilega.

-

Þessari mynd er hægt að lýsa í nokkrum orðum: Fyndin gamanmynd sem stendur tímans tönn. Ég vil enda þessa færslu á stutt broti úr myndinni, þegar rútan kemur upp að hótelinu og kallinn reynir við Daphne, fyndið atrið og það sést í því hversi lík hún er Jókernum, ekki endilega besta senan til að sýna það en takið eftir því.



Thursday, November 26, 2009

The Godfather

Ég horfði á fyrstu myndina í The Godfather þríleiknum um helgina, Mario Puzo’s The Godfather (1972). Ótrúlegt en satt þá hafði ég aldrei séð hana áður og reyndar hef ég ekki heldur séð hinar tvær, The Godfather: Part II (1974) og The Godfather: Part III (1990). Í raun heita þær líka Mario Puzo’s ...... en Mario var/er(veit ekki hvort hann sé dáinn) rithöfundur sem skrifaði bækur um guðfeður Corleone ættarinnar en myndirnar er byggðar á þeim bókum. Maðurinn sem leikstýrði öllum þremur myndunum var hann Francis Ford Coppola en hann leikstýrði líka Dracula (1992) þar sem leikarar á við Keanu Reeves, Winona Ryder(hvar er hún í dag?) og Gary Oldman fengu að sýna listir sýnar. Mér líst allavega á allar þær myndir sem ég hef séð eftir þennan leiksjóra, Dracula og The Godfather.

Hvar á maður að byrja með að lýsa þessari mynd. Flottur söguþráður, margar skemmtilegar tökur, auðvitað klikkað svöl tónlist og margt fleira sem gerir þessa mynd að meistaraverki.

Coppola og Puzo gerðu handritið að myndinni í sameiningu. Sögusviðið er mjög flott og sýnir vel stemminguna í myndinnni. Myndin gerist líklega á árunum 1950-1960, þegar glæpastarfsemi var enn mikil í Bandaríkjunum og löggan var að einhverju leiti spillt. Það er eitt sem truflar mig við þessa mynd og ég ætla að koma með það strax. Þó að myndin gerist á þessum tíma þá hljóta að vera einhverjar löggur sem eru ekki spilltar, er það ekki? Það er alveg ótrúlegt hvað mennirnar komast upp með mörg morð. Mér finnst þessi þáttur gera myndina óraunvörulegri og verri fyrir vikið en hún er samt það góð að það skiptir litlu máli.

Reyndar finnst mér tvennt annað illa gert við þessa mynd. Í tveimur atriðum, í þeim báðum er James Caan, e.þ.s. Sonny, í sviðsljósinu, er leikurinn eða hugmyndin bakvið atriðið ekki nógu góð. Það fyrra er þegar Sonny fer í e-ð hverfi til að lemja mann systur sinnar. Í sumum skotunum sést greinilega að James Caan snertir hann ekkert og er reyndar langt frá með höndina þegar hann slær manninn. Það seinna er þegar Sonny er drepinn, úff. Fyrst er hann skotinn svona 20 sinnum eða ekki oftar inni í bílnum sínum og eftir það nær hann að koma sér út úr bílnum og stendur í fæturnar í svona 6 sekúndur á meðan hann er skotinn mun fleiri skotum. Á meðan skothríðinni stendur yfir kippist hann allur til og nær samt að standa í fæturnar. Ég hló pínu þegar ég sá þetta atriði og ég trúi því varla að Coppola ætlaði að gera þetta fyndið. James Caan lék alls ekki illa í þessari mynd en þessari tökur er frekar misheppnaðar. Þetta er það sem mér fannst að þessari mynd, annars fannst mér hún frábær.

Tónlistin er líklegast mikilvægast parturinn í myndinni. Hið sögufræga Godfather-stef geri spennuna mun meira og hleypir áhorfandanum meira inn í myndina. Coppola beitir henni skemmtilega og alveg hárréttum tímum í gegnum myndina. Stefið fræga kemur oft á undan atriðum sem sýna eitthvað skelfilegt eins og morð eða e-ð annað. Dæmi um e-ð annað er þegar kvikmyndaleikstórinn vaknar einn morgun með hausinn af verðlaunahestinum sínum í rúminu. Fyrir þá senu er taka af húsinu hans þar sem stefið magnast hægt og rólega. Asskoti flott sena. Annað atriðið sem mér dettur í hug er byrjunaratriðið, inni í skrifstofu Don Corleone. Setur grunninn að restinni af myndinni og sýnir áhorfendum hvað koma skal. Annars er þessi mynd “overflowing” af flottum atriðum.

Einn af þeim hlutum sem gera þessa mynd að meistaraverki, og það frekar stór hlutur, eru leikararnir. Ég man ekki eftir neinum leikara sem mér fannst standa sig illa í myndinni en þeir leikarar sem stóðu sig frábærlega voru nokkrir.

Mig mundi gruna að hver sem hefur séð þessa/r mynd/ir hljóti að hugsa um Marlon Brando þegar þau heyra orðið godfather (eða kannski Al Pacino). Árið 1999 gaf Ameríska Kikmyndastofnuni (the American Film Institute) út list með 50 bestu leikurum allra tíma. Marlon Brando er í fjórða sæti á þessum lista (sem segir margt) en enginn annar en Humphrey Bogart, sem við sáum öll í Casablanca, trónir á toppnum á þessum lista. Marlon Brando er algjör snillingur. Það er ekki hægt að setja út á leikinn hjá honum í þessari mynd. Hann hefur hlotið fullt af verðlaunum, þar á meðal Óskarsverðlaun fyrir leik sinn sem Don Vito Corleone í The Godfather. Hérna er upptaka af verðlaunarefhendingunni, frekar sérstakt.

Þetta mynband hér útskýrir kannski af hverju hann gerði þetta., viðtal við Marlon Brando árið 1973 (The Dick Cavett Show). Djöfull er hann svalur í þessu myndbandi.

Al Pacino var líka flottur í The Godfather. Kemur alltaf meira og meira inn í myndina þegar hann fer að taka meiri þátt í fjölskylduiðnaðinum. Mér finnst skrítið að hann sé ekki á þessum lista á meðan Emily Watson og James Woods eru á honum. Allavega þá sýnir þessir frábæri leikari góða takta í þessari mynd og ég býst við því að hann sé góður í hinum tveimur.

Aðrir góðir leikarar sem ég hef séð í öðrum myndum voru t.d. James Caan, Robert Duvall (frábær leikur hjá honum) og Diane Keaton. Ekkert sem á sá sem truflaði mig nema atriðin sem ég taldi upp hér fyrir ofan.

Þá alla sem ég hef spurt hvað þeim finnst um The Godfather hafa allir svarað, sem hafa séð hana, að hún sé meirháttar mynd eða e-ju í þá áttina. Eftir að ég horfði á þessa mynd voru við pabbi að tala um hana.Við vorum sammála að hún væri ekki nógu raunvöruleg og hann benti mér á aðra mynd sem væri jafn góð ef ekki betri, The Untouchables (1959). Hún gerist víst á svipuðum tíma en, að hans mati, raunvörulegri. Ætli maður horfi ekki á hana um jólin..


Thursday, October 29, 2009

Við áttum að horfa á kvikmynd og lesa handritið ekki fyrir svo löngu síðan. Ég gerði það nú á réttum tíma en nennti ekki að blogga um það þá en betra er gera það seint en aldrei.

Ég horfði á myndina 28 weeks later, eina myndin inn á tölvunni minni sem ég átti eftir að sjá. Hún kom út árið 2007 og er framhaldsmynd 28 days later. Maðurinn sem leikstýrði myndinni heitir Juan Carlos Fresnadillo, ekki sá sami og leikstýrði 28 days later. Hann heitir Danny Boyle. Myndin sjálf fékk ágætar viðtökur þegar hún kom í kvikmyndahúsin enda margir flottir hlutir í henni. Mér fannst hún alveg ágæt en reyndar ekki jafn góð og sú fyrri. Ég fann aðeins eitt handrit af myndinni á netinu og það handrit var víst ekki endanlega handritið. Söguþráðurinn í handritinu var aðeins öðruvísi en í myndinni. Þrátt fyrir það þá kláraði ég myndina og handritið.

Ég verð að henda nokkrum spoilerum inn á milli, bara svo þið vitið.

Ég horfði á sirka 10 mínútur af myndinni og las svo handritið aðeins lengra en ég var kominn í myndinni. Ég gerði þetta nokkrum sinnum en þegar 30-40 mínútur voru liðnar af myndinni þá tók handritið allt aðra beygju. Plottið í 28 weeks later er að þessi vírus kemur aftur upp á milli manna og handritið sem ég las var ekki sammála myndinni hvernig það gerðist. Í myndinni fóru krakkarnir inn í hluta af London sem var rautt svæði, bann svæði. Í handritinu gera þau það líka. Á þessu svæði finna þau mömmu sína sem þau héldu að væri dáin en hún var víst sýkt af vírusinum en hann hafði engin áhrif á hana, hún var sem sagt ónæm (eitthvað að gera með það að hún var með mismunandi auganlit, annað blátt og hitt rauðbrúnt, en sonur hennar var einmitt þannig líka svo hann var einnig ónæmur fyrir vírusinum). Hún er svo tekin aftur í græna svæði í London og rannsökuð. Út frá henni breiðist svo vírusinn aftur út og gerir næstum alla þá sem lifa á græna svæðina að morðóðum brjálæðingum. Hins vegar stóð í handritinu að krakkarnir voru í yfirgefnu sædýrasafni og fundu lík af strák sem bar vírusinn. Líkið var í góðu ástandi og þess vegna tóku tilraunamenn líkið með sér á græna svæðið og gerðu einhverjar rannsóknir. Þar varð eitthvað óhapp og vírusinn breiddust út þaðan. Eftir það var myndin ekkert sérlega í samræmi við handritið en samt voru nokkur atrið og samtöl sem voru eins.

Þótt að handritið og myndin voru ekki alveg í takti var þetta verkefni ekki svo slæmt. Við að gera þetta kynnist maður betur handritagerð og skrifum á samtölum og síku. Eitt líka sem Þorsteinn Gunnar Bjarnason, leikstóri og handristhöfundur íslensku myndarinnar Jóhannes, sagði var að íslenskir handritshöfundar falla oft í þá gryfju að gera samtöl í handritum að of miklu ritmáli. Annars fékk maður annað sjónarhorn að horfa á myndina og lesa síðan um atvikið sjálft. Ég sá atriðið alveg fyrir mér og einnig hvernig ég gæti breytt því. Tekið skot frá öðrum sjónarhornum og slíku. Síðan þegar handritið var ekki í samræmi við myndina þá ímyndaði ég mér hvernig atriðin væru. Morðóðir brjálæðingar að elta óbreytta borgara á meðan leyniskyttur á húsþökum fyrir ofan væru að skjóta á alla sem hreyfðust fyrir neðan. Ég ákvað ekki að horfa á aðra mynd og lesa annað handrit því ég lærði af þessu....og ég hreinlega nennti því ekki.



Nú ætla ég að fjalla um sjálfa myndina aðeins betur og segja það sem mér fannst. Þessi mynd fjallar um stjórn Bandaríkjanna og bandaríski herinn ná alltaf að klúðra málunum, eða svona næstum því. Myndin gerist í Englandi. Byrjunaratriðið er rosalegt, eltingaleikur og mikill hasar. Don, leikinn af Robert Carlyle, sleppur einn af 7 mönnum frá fólki sýkt af vírusinum. Á meðal þeirra sem deyja í byrjun var konan hans, eða svo er gefið í skyn. Síðan er spólað áfram. 28 vikur hafa liðið síðan að fyrstu fréttir um vírusinn bárust um heiminn. Bandaríkin voru fyrst til að koma til Englands aftur og rannsaka aðstæður. Myndin fylgir Don og tveimur krökkunum hans, þeim Andy, Mackintosh Muggleton, og Tammy, Imogen Poots. Þau eiga heima á græna svæðinu í London, svæði sem er laust frá vírusinum. Þegar krakkarnir ferðast án leyfis út í rauða svæðið af London þá finna þau mömmu sína á lífi. Þegar hún er flutt aftur í græna svæðið komast vísindamenn að því að hún gengur með vírusinn en sýnir engin viðbrögð, eins konar hýsill. Þegar maður hennar kemst að því hún er á lífi fer hann til hennar og kyssir hana. Þannig smitast hann, drepur hana og fer svo og bítur aðra og þeir verða brjálaðir sem ráðast á fleiri og fleiri og fleiri og….. Það endar þannig að sjórnvöldin yfir græna svæðina missa öll tök, hörfa og reyna að stöðva útbreiðslu á vírusinum. Myndin endar þannig að pabbi krakkanna ræðst á strákinn sem verður sýktur en hann, eins og mamma sín, sínir engin einkenni. Þeim er síðan bjargað og flutt yfir á meginland Evrópu. Alveg í lokin er sýnt atriði sem gefur til kynna að vírusinn er kominn í Evrópu, nánar tiltekið París. Þetta á víst að leggja grunninn að framhaldi…28 months later.

Mér fannst myndin alveg ágæt, ekkert meistarastykkir og ekkert heldur léleg. Nokkr mjög flott atriði í henni og fínn leikur hjá flestum, enginn áberandi góður neitt. Reyndar fannst mér krakkarnir tveir, Tammy og Andy, ekkert sérlega góð. Lélegust að mínu mati. Tónlistin var magnþrungin og dramatísk, eitt það besta við þessa mynd.

Ég hef nú ekkert mikið annað að segja um þessa mynd nema það hún var fyrirsjáanleg. Maður áttaði sig eiginlega strax á því hvernig plottið væri og síðan sit ég stórt spurningamerki við nokkur atriði. Eins og: af hverju var allt fólkið læst inni fyrir neðan einhverja byggingu, læst öllum hurðum nema einum þannig að Dan, sem var sýktur, gat gengið inn og fengið M-m-m-monster kill á einni mínútu. Síðan var fullt fleiri sem ég man ekki alveg eftir, fullt sem “meikaði ekkert sens”.

Fín mynd, ekkert meira en það.

Wednesday, September 30, 2009

RIFF 1

Hér ætla ég að fjalla aðeins um Another Planet, For the Love of Movies og One flew over the Cukoo's Nest. Þetta voru 3 af fyrstu fjórum myndunum sem ég fór á. Sú fjórða var Prodigal Sons en ég ákvað að skrifa ekki um hana í þessari færslu. Það kemur bara í ljós hvort ég mun gera það seinna eður ei.


Another Planet (2008)

Þetta var fyrsta myndin sem ég sá á hátiðinni. Ég las um hana í bæklingnum, okkur félögunum leist vel á hana og skelltum okkur á hana. Þetta var ein af þessum myndum sem hafa þann tilgang að sýna hvernig börn annars staðar í heiminum hafa það, þá sérstaklega þróunarlöndum Afríku og Suður-Ameríku þar sem er mikil fátækt. Eftir þessa mynd var maður meðvitaður um líf þeirra barna, hversu erfitt það er....við megum ekki gleyma þessum hluta jarðarninnar. Allavega fékk ég þau skilaboð frá krökkunum, öllum nema þeim fyrsta. En áður ég byrja að tala um það þá ætla ég að segja örlítið frá myndinni.


Þetta er heimildarmynd þar sem fylgt er 7 mismunandi börnum frá mismunandi löndum í nokkurn tíma. Þeir segja frá daglegu lífi sínu og hversu erfitt þetta allt er, áhorfandinn skynjar það, allavega hjá flestum börnunum. Ein stelpa býr í fátækrahverfi og vinnur við það að tína plast og ál á ruslahaugum allan liðlangan daginn til að hún og fjölskyldan hennar geta borðað um kvöldið. Hún er 9 ára. Önnur stelpa lifir við það að selja sig. Hún segir sögu sína hvernig hún komst í þennan bransa(aðeins 8 ára) og fleira. Hún er 14-15 ára. Svo er strákur á svipuðum aldri og litli bróðir minn, 12 ára. Hann er í skæruliðaher og heldur á byssu eins og ekkert sé. Mér fannst spjallið viðtalið við hann frekar truflandi og óhugnalegt. Hann var að segja frá því að stundum gæti hann ekki sofnað á næturna vegna andlita sem hann sá fyrir sér af mönnum sem hann hafði drepið. Annars voru þetta allt átkamikil viðtöl við þessa krakka, eða áttu að vera það en það var eitthvað sem vantaði. Þó svo að þetta hafi verið ágætis mynd vantaði stundum trúverðuleikan í hana, að mínu mati. Síðan var ég ekki alveg viss hvað leikstjórinn Ferenc Moldoványi var að hugsa með að setja tvo krakka inn í þessa mynd, stúlkuna í byrjun og krakkan sem burstaði skóna. Við fengum ósköp lítið að vita um stúlkuna í byrjun nema það að þegar hún var lítil var hún næstum búin að tína sálinni sinni í stóra á(skv. þeirra trúarbrögðum) og var núna að leika sér hjá ánni. Mér fannst hún ekki alveg passa inn í stemmingu myndarinnar en kannski átti hún bara að vera brot frá “söguþræðinum” eða eitthvað. Síðan var einn krakki sem er sýndur í myndinni vera að bursta skó fyrir peninga og að klappa dúfum. Þessi litli strákur, líklegast frá Suður-Ameríku, gekk um á torgi og burstaði skó þeirra sem vildu. Hann segir ekkert í myndinni nema talar við sig sjálfan og raular. Hver var hugsunin bakvið það? Ég sé frekar eftir því að hafa ekki farið að tala við þenna leikstjóra varðandi þetta og fleira.


Annars fannst mér þessi mynd í heildina séð ágæt, ekki góð heldur ágæt. Það var eitthvað sem vantaði við þessa mynd. Trúverðugleika stundum og eitthvað fleira. Þyrfti eiginlega að horfa á hana aftur til að vita nákvmlega það sem mér fannst vanta við hana en ég veit ekki hvort ég mun gera það.



For the love of movies: The story of American Film Criticism (2009)

Hér kemur trailerinn:


Þessi heimildarmynd var gerð af fyrrverandi gagnrýnanda og fyrsta myndin hans. Þessi maður heitir Gerald Peary en hann er með sína eigin HEIMASÍÐU. Hún er stútfull af gagnrýnum, viðtölum og fleiru sem tengist kvikmyndum. Eins og titillinn segir til um fjallar hún um sögu kvikmyndagagnrýna í Bandaríkjunum. Þetta var afar fróðleg mynd. Ég lærði eitthvað af henni eins og hvað mismunandi fólki finnst gott að gera þegar það á að gagnrýna nýjar myndir, hvernig kvikmyndagagnrýni hafa breyst úr flottum og vönduðum pistlum í blöðum yfir í netfærslur þar sem bloggarar geta skrifað hvað sem þeim dettur í hug og fleira. Þegar við vorum að horfa á myndina var leikstjórinn með í salnum en hún var sýnd í fínum fundarsal í sama húsi og Þjóðminjarsafn Íslands er nú til staðar. Eftir myndina var svo umræða um myndina þar sem leikstjórinn talaði um myndina, svaraði spurningum þriggja íslenskra kvikmyndagagnrýnenda og svo kom salurinn seinna meira og meira inn í umræðurnar. Spurningarnar voru um myndina en einnig um þróun kvikmyndagagnrýna. Myndin sjálf varpar eiginlega fram spurningu í lokin þar sem áhorfandinn pælir í hvernig þetta listform ef svo má kalla verður eftir nokkur ár. Með árunum og betri tækni hafa fleirum og fleirum gagnrýnendum verið sagt upp, líklega vegna áhugaleysis, fjárhagsvandamála eða eitthvað. Eftir að netið kom til sögunnar hafa fleiri og fleiri einstaklingar stofnað sínar eigin heimasíður tileinkaðar kvikmyndum. Þetta er þróunin í dag en stóra spuringin er hvort það verða einhverjir gagnrýnendur eftir í blöðunum eftir 10-20 ár. Gott dæmi um þessa þróun er borgin Honk Kong (mig minnir að Peary hafi sagt Hong Kong). Í henni eru mörg hundruð gagnrýnanda og mörg hunrduð blað(dagblaða, vikublaða, mánaðarblaða og fl.) en aðeins tveir kvikmyndagagnr. eru með fast starf hjá dagblöðum við það að skrifa gangrýni á nýjum kvikmyndum (þá segir salurinn: VOOOÓ).


Ég veit ekkert hvað ég á að segja meira um þessa mynd nema hún var fræðandi. Mér fannst hún ekki skemmtileg og örugglega leiðilegasta myndin sem ég fór á á meðan RIFF stóð en hún var ekkert svo slæm. Ég mæli ekkert hrikalega mikið með henni en þeir sem hafa virkilega gaman af heimildarmyndum um kvikmyndagagnrýni(eins og þær eru margar í heiminum) þá endilega skellið ykkur á hana. Nema hún er ekki sýnd lengur hérna á Íslandi svo eina leiðin til að ná í hana væri í gegnum netið......sem er ólöglegt.....sem er slæmt.....eins og myndin. Nei nei, hún var fín. Búið.



One Flew over the Cuckoo's Nest (1975)

Þessa mynd þekkja nú flestir og þarf varla að kynna. Eftir snillinginn Milos Forman. Ég hafði aldrei séð þessi mynd áður svo þetta var fyrsta sinn sem ég sá hana og ekki við leiðinlegar aðstæður. Troðfullur salur sem lifði sig inn í myndina. Frábær upplifun. Fólk fór að klappa í nokkrum atriðum eins og þegar indjáninn treður körfuboltanum ofan í körfuna í leiknum gegn vörðunum. Salurinn var eiginlega hlæjandi alla þá senu. Ég veit ekki hvað það var; andrúmsloftið, sú staðreynd að hún var sýnd á filmu (MJÖG flott). Eitthvað var það sem gerði þessa frábæru mynd enn betri með því að horfa á hana þar. Ég held ég sé 100% viss um að þessi sýning sé sú besta sem ég hef farið á í bíó. Ekki endilega besta mynd en hún kemst öruggt á topp 10 listann minn.


Leikurinn var einstaklega góður. Jack Nicholson sem McMurphy, sérstök persóna sem á engan veginn heima á geiðveikrahæli (sem og nokkrir þarna inni), Brad Douriff (betur þekktur sem Grímur Ormshali fyrir LotR aðdáendur) lék unga strákinn Billu Bibbit frábærlega, Danny DeVito átti einstaklega góðan leik sem barnalegi og hláturmildi Martini en ekki má gleyma Louise Fletcher sem lék Ratched hjúkrunarkonu af mikilli yfirvegun. Eftir myndina þá kom Milos Forman og opnað var fyrir spurningar. Einhver úr salnum spurði af hverju hann hafði valið Louise Fletcher til að leika Ratched og hans svar var að hún var ekki hans fyrsti valkostur en sá besti. Hann ætlaði að hafa hjúkrunarkonuna sem pínu grimma og úrilla konu en hún var frekar blíð og yfirveguð en samt á sama tíma stjórnaði öll eins og einvaldur með verðina sér við hlið. Það er erfitt að hrósa einhverjum einum leikara fyrir sinn leik í þessari mynd því það stóðu sig allir virkilega vel.


Það voru nokkur skot í myndinn sem tók eftir og mér fannst virkilega flott. Eins og flest atriðin þegar sjúklingarnir sátu í boga í kringum hjúkrunarkonuna, sérstaklega í fyrsta skipti þegar McMurphy sat bara hjá og hlóg af öllu saman. Annað virkilega flott atriði er þegar þeir eru að spila BlackJack í fyrsta skipti. Martini alltaf að segja “hit me” og hinir spurjandi spurninga um leikinn. McMurphy fær nóg, stendur upp og segir einhverja setningu:”It´s like I’m playing with lunatics..”. Auk fleirri atriða fannst mér eitt close-up mjög áhrifaríkt. Þegar Billy fer inn í herbergi með Candy, stelpunni hans McMurphy , kemur langt skot af McMurphy og svipbrigðin hans, ekki reiður en samt ekki glaður, líkegast fullur en það var samt ekki það. Klippan var í svona 15 sek og ég hætti ekki að hugsa um þetta fyrir en ég kom heim eftir myndina.


Þessi sögurþáður er örðuvísi og skemmtilegur. Myndin er byggð á bókinni, One Flew over the Cuckoo's Nest, en hún segir frá atburðarásinni út frá sjónarhorni indjánans. Höfundur bókarinnar var Ken Kesey. Að sögn Milos Forman vildi Kesey eiga svo mikin þátt í myndinni að han vildi gera handritið og leikstýra henni en ekki varð úr því. Milos sagði að handritið hafi verið flott en ómögulegt til að grípa á filmu.


Tónlistin var góð en í raun tók ég ekki mikið eftir henni því ég var sokkinn inn í myndina allan tímann. Enn og aftur þá segi ég að þessi mynd er án efa komin inn á topp 10 listann minn og mæli hiklaust með henni. Ef þú ert búinn að sjá hana þá horfir þú aftur á hana, það ætla ég að gera.

Monday, September 28, 2009

RIFF-myndir

Hér kemur smá færsla um myndirnar sem ég sá á RIFF. Betri umfjöllun um flestar myndirnar kemur síðar.

Ég sá alls 8 myndir á RIFF og þær voru; Another Planet, For the Love of Movies: The Story of American Film Criticism, Prodigal Sons, One Flew over the Cuckoo's Nest, Red Race, Antichrist, Død Snø, Dogtooth og Stingray Sam.

Ég skemmti mér mest á síðustu þremur myndunum og One Flew over the Cuckoo's Nest. Mér fannst Another Planet, Prodigal Sons og Red Race allar á svipuð plani og For the Love of Movies:… var fræðandi en alls ekki skemmtileg, ef satt skal segja þá fór hún bara alveg með mig. Síðan veit ég ekki hvað mér fannst um Antichrist, hvort var hún góð eða slæm?

Allavega þá koma umfjallanir um flestar þessar myndir síðar í vikunni.

Vikan fyrir RIFF

Vikuna fyrir RIFF sá ég eina mynd og skellti mér á sýningu um sögu kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég er því miður ekki búinn að gefa mér tíma fyrir þetta en betra er seint en aldrei. Myndin sem ég sá heitir Cube er frá árinu 1997. Frekar sérstök mynd með engum þekktum leikurum. Annars var þessi sýning haldin í Þjóðmenningarhúsin og hvet ég sem flesta að fara á þessa sýningu, mjög fróðleg.

The Cube (1997) SPOILER

Einn daginn vakna sex persónur upp í völundarhúsi sem er einn stór teningur með ótal mörgum herbergjum en öll eru þau jafn stórir teningar. Þessar persónur, lögreglumaður, e-s konar arkitekt, háskólanemi, læknir, flóttasnillingur og vitskertur maður, þekkjast ekki neitt og vita ekkert hvað er að gerast fyrir þau. Smátt saman, með reynslu og dauða flóttasnillingsins, komast þessar persónur að því að einhver herbergjanna eru með gildrum í sem valda oftast dauða. Því lengra sem líður á myndina því meira uppgötva þau um þetta dularfulla völundarhús og um hvort annað t.d. komast þau að því að arkitektinn vann við gerðina á völundarhúsinu.

SPOILER FRAMUNDAN. Háskólaneminn kemst að því að hvert herbergi er með tölum sem gefa til kynna hvort herbergið sem með gildru í og hvar í teningnum það er en það var hængur á. Til þess að lesa úr þessum tölum hvort herbergin væru með gildru eður ei þurfti MIKLA stærðfræðikunnáttu sem neminn var ekki með eeeen sem betur fer var vitskerti maðurinn séní í stærðfræði, þau komust að því þegar neminn var að lesa upp tölurnar. Í sameiningu komast þau að einn af hliðum teningsins er það bíður þeirra ekkert nema myrkur og hátt fall. Þá byrjar löggan hægt og rólega að missa það. Þau reyna að klifra niður hliðina á völundarhúsinu og læknirinn fer fyrst. Sú tilraun endar með því að húnn dettur næstum, löggan rétt grípur í hana. Þakklátur læknirinn horði á ánægða svipinn á löggunni sem breytist yfir í andlit fyllt hatri og reiði. Löggan drepur hana með því að sleppa henni og segir engum frá því. Þau halda þá áfram í leit að útgangi og á leið sinni koma þau í herbergi sem ætti að vera fyrir utan völdunarhúsið. Þau halda leið sinni áfram en á leiðinni uppgötvar neminn að teningurinn er á hreyfingu, þ.e. hvert herbergi er með nokkrar staðsetningar í teningnum og færist á milli þessara staðsetninga. Þá fara neminn, arkitektinn og vitskerti maðurinn í leit að herberginu sem átti að vera fyrir utan völundarhúsið, leiðin út úr teningnum, en í leiðinni eru þau að flýja frá löggunni sem er að missa vitið. Þau komast í herbergið sem er útgönguleiðin og það færist að opinu. Í endann þegar þau er að sleppa út þarf löggan endilega að koma aftur inn í pakkann og eyðileggur næstum allt. Myndin endar með svakalega fyrirsjáanlegu lokaatriði þar sem aðeins vitskerti maðurinn kemst út og öll hin verða eftir í völdunarhúsinu annað hvort dáinn eða að deyja.

Mér fannst myndin afar sérstök og hefði alveg getið verið betri. Myndatakan einkenndist af nærmyndum til að áhorfandinn nái sem flestum svipbrögðum leikara og tónlistin var heldur drungaleg alla myndina. Leikurinn var ekkert sérstakur en allir leikaranir voru óþekktir(allavega þekkti ég engan af þeim) og vottaði í reynsluleysi og skringilegum leik *hóst*löggan*hóst*. Annars voru tveir leikara sem voru áberandi bestir að mínu mati og það var maðurinn sem lék arkitektinn, , og vitskerta manninn, . Þeir stóðu sig með prýði og ég sá miklu minna í þeirra leik sem ég gat sett út á heldur en leika annarra leikara. Þegar ég spurðist um þessa mynd og leitaði af upplýsingum um hana á netinu þá komst ég að svolitlu skemmtilegu. Myndin var næstum öll tekinn upp í einu herbergi sem var búið til og fyrir utan það var hún gerð í tölvu. Þegar leikaranir voru að flakka á milli herbergja var þá alltaf notað sama herbergið aftur og aftur nema einu var breytt, ljósunum fyrir utan. Næsta herbergi var alltaf í örðum lit en herbergið á undan (rautt, grænt, hvítt, blátt..). Sniðug leið til að spara en þessi mynd kostaði ekki neitt miðað við stóru Hollywood-myndirnar. Þetta var eitt af þeim hlutum sem gerðu þessa mynd svona sérstaka. Hún fékk góðar viðtökur á flestum stöðum sem hún var sýnd og ég held að engin mynd hafi grætt hlutfallsleg(kostnaður og gróði) jafn mikið og hún gerði, alveg ótrúlegt. Síðar voru gerðar Cube 2 og 3. Ég hef ekki séð þær en mig grunar að þær fjalli um eitthvað mjög svipað. IMDB gefa þeim lélegar einkunnir en ég veit ekkert meira um þær en það.

ÍSLAND::KVIKMYNDIR | Berlín – Kaupmannahöfn - Reykjavík (Þjóðmenningarhúsið)

Eins og orðin hér að ofan gefa til kynna er þetta sýningi sem hefur farið um Berlín og þaðan til Kaupmannahafnar og endar í Reykjavík. Það er margt ansi fróðlegt á þessari sýningu. Það er rúmlega 10 stöðvar á sýningunni og á hverri stöð eru smá upplýsingar um ákveðið tímabil eða ákveðnar myndir. Á fjórum af þessum stöðum er hægt að horfa á myndir í fullri lengd og úrvalið er mikið, um það bil 100 myndir. Fínn valkostur en ég held að fáir nenni að horfa á heila mynd í óþægilegum stólum með heyrnatól á sér á safni en það gæti verið að einhverjum líkar það, mér fannst það heldur tilganslaust. Held að þessi hugmynd með kvikmyndirnar hafi virkað betur í Berlín og Kaupmannahöfn, þar eru að minnsta kosti færri sem hafa séð íslenskar myndir. Allavega þá er þessi sýning vel heppnuð en mér finnst furðulegt af hverju það sé búið að auglýsa hana svona lítið. Kannksi á hún ekki við alla, maður veit ekki.

Það sem mér fannst áhugaverðast við þessa sýningu og ætla að skrifa örlítið um var sagan um byrjun kvikmyndagerðar og um tvo frumkvöðla hennar á Íslandi. Hún hófst í byrjun 20. aldar en fyrsta upptaka á Íslandi hét Slökkvuliðsæfing í Reykjavík (1906) og gerðu þeir Peter Petersen og Alfred Lind (Danir) hana. Fyrsta kvikmynd sem var tekin upp hér á Íslandi heitir Saga Borgarættarinnar (Borgslægtens Historie (1919)). Í þeirri mynd voru allir leikara danskir nema einn íslendingur, hann Guðmundur Thorsteinsson. Hann lék persónu sem hét Muggur. Síðan kom fyrsta alíslenska myndin Ævintýri Jóns og Gvendar (1923), sem var reyndar stuttmynd, en hana gerði einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar, Loftur Guðmundsson. Þó svo að Loftur var meira lærður í ljósmyndun heldur en kvikmyndagerð varð hann einn af brautryðjendum í þessum íslenska iðnaði og má nefna dæmi um það að myndin Niðursetningur (1951) eftir hann var eins konar spegill á þjóðfélagsþróun hérlendis en síðan þá hefur það efni verið oft notað í íslenskum kvikmyndum, eiginlega eitt af einkennum í íslenskri kvikmyndagerð. Annar frumkvöðull var Óskar Gíslason en eitt af fryrstu verkum hans var Lýðstofnunin (1944), heimildarmynd sem fjallaði, eins og nafnið gefur til kynna, um stofnun á lýðveldina Íslandi. Þetta var talin ein merkasta heimildarmynd okkar Íslendinga í langan tíma en hennar tilgangur var sýna og fræða landann hvernig þetta hefði allt farið fyrir sig, aðdragandan og einnig til að efla þjóðarstolt. Óskar og Loftur voru afkastamiklir menn en þó voru þeir ekki alltaf sammála. Einhver rígur var á milli þeirra en ekki var sagt mikið frá því á sýningunni. Óskar gerði eina frægustu heimildarmyndum í sögu Íslands en það hafa allir heyrt um Björgunarafrekið við Látrabjarg (1949) hvort sem það er þessi mynd eða hjá grínkóngunum Sigurjóni og Jón Gnarr í Tvíhöfða (samt er myndin ekkert skild því sem Tvíhöfði gerði ..). Hugmynd Óskars var sú að gera leikna heimildarmynd um sannan atburð, þegar 15 mönnum var bjargað hjá Látrabjargi úr erlenda togaranum Dhoon, og sviðsetja björgunarafrekið með togara og leikurum. Loks þegar Óskar kom til Vestfjarðar þá fengu þeir fréttar að togari sem bar nafnið Sargon – CY 853 var búinn að stranda rétt hjá Látrabjargi. Þá greip Óskar tækifærið og fór ásamt tökuliði sínu með björgunarmönnum og myndaði næstum alla björgunina. Þetta gerði myndina bara raunvörulegri fyrir vikið en það þýddi líka að ekki mátti gera mikið af mistökum, þú fékkst bara eitt tækifæri. Auk þess var mikið óveður svo þetta leit mjög vel út. Ég sá lítið brot úr myndinni og þar sýnt hvernig mönnunum var bjargað og það sem mér fannst skrýtið var það að þeim var fyrst gefið sígarettur þegar þeir komu í fjöruna, ekki teppi eða eitthvað slíkt. Annars gerðu þessir menn miklu fleiri myndir sem ég nenni ekki að telja allar upp hér svo ég hvet ykkur að fara á sýninguna í Þjóðmenningarhúsinu ef þið viljið fræðast meira um þá.

Eitt annað fannst mér merkilegat. 1978 var haldin fyrst íslenska kvikmyndahátíðin og það í Reykjavík. Upphafsmaður hennar var Friðrik Þór Friðriksson, kvikmynda-leikstjóri, -gerðarmaður og meistari. Þessi hátíð þótt vel heppnuð og hún ýtti undir íslenska kvimyndagerð og var eiginlega lokaskrefið sem þurfti til að stofna styrktarsjóð fyrir kvikmyndagerð. Sú hugmynd um sérstakan styrktarsjóð kom fyrst upp árið 1975 en varð að raunveruleika 1978. Þá var Íslenski kvikmyndasjóðurinn stofnaður og starfar enn í dag.

Ég get skrifað svo miklu meira um þessa sýningu en ég held að lesandi sé kominn með nóg af upptalningu á upplýsingum um upphaf og sögu íslenskrar kvikmyndagerðar svo ég enda að benda ykkur á slóðir varðandi þetta blogg. HÉR er trailer-inn af Cube og HÉR getið þið skoðað meira um sýninguna.

Wednesday, September 9, 2009

Topp 5

Fyrsta verkefnið, að skrifa sinn topplista. Ég hef aldrei hugsað út í það áður hvaða myndir mér þykir bestar, hvaða myndir eru topplistanum mínu, en þegar ég fór að hugsa út í þetta komu upp fimm myndir sem sitja hvað mest í mér. Ég hef ekki mikið vit á kvikmyndum né kvikmyndagerð svo það er eflaust fullt af fólki sem er ósammála mér og mínum lista en það verður bara að hafa það. Þessi listi á ef til vill eftir að breytast þegar ég verð búinn með þennan áfanga, það verður spennandi að sjá hvaða mydnir sitja eftir, hvaða myndir koma í staðinn eða hvort listinn eigi eftir að breytast eitthvað yfir höfuð.

Myndirnar á listanum eru í engri sérstakri röð svo sú efsta er ekki endilega í fyrsta sæti, einfaldlega sú fyrsts sem mér datt í hug.


El laberinto del fauno (2006)

Frábær kvikmynd eftir spænsku mælandi leikstjórann Guillermo del Toro. Hún gerist á þeim árum þegar borgarastyrjöldin á Spáni er ný búin, á tímum seinni heimsstyrjaldar. Myndin gerist út í sveit þar sem menn Franco er með bækistöðvar og í skóginum í kringum eru uppreisnarmenn. Það er greinilega alltaf mikil barátta á milli þeirra og sú síðasta er í enda myndarinnar. Aðalpersóna myndarinnar heitir Ofelia og er leikinn af ungri spænskri stúlku að nafni Ivana Baquero. Mér finnst oft mikil áhætta að vera með krakka að leika í myndum en hún gerir þetta mjög vel. Hún var 11-12 ára þegar þessi mynd var tekin upp og miðað við aldur var þetta frábærlega leikið hjá henni. Leikur sitt hlutverk af mikilli einlægð og heldur alltaf saklausa andlitinu. Aðrir leikarar voru góðir og man ég ekki eftir neinum áberandi góðum nema kannski Sergi López sem lék herforingjann á svæðinu. Persónan sem hann lék var ansi brútal og hann lék hana með mikilli príði. Flottasta atriðið hjá honum er þegar hann saumar kinnina sína aftur saman og fær sér svo sopa af viskí, hart.

Söguþráðurinn er flottur, eins konar barnasaga inni í alvarlegri sögu. Innri sagan er um Ofeliu og hvað fáninn Pan lætur hana gera til þess að sanna að hún sé prinsessan Moanna endurfædd, dóttir konungs undirheima. Ytri sagan er umhverfið, það sem er að gerast í kringum litlu stelpuna. Móðir stúlkunnar er ólétt eftir herforingjann og þau flytja til hans í byrjun myndarinnar. Móðir hennar er veik alla myndina og stúlkan reynir að hjálpa henni með leiðsögn frá Pan. Myndin endar með árás frá uppreisnarmönnum og menn Francos eru gjörsigraðir en á meðan árásin stendur yfir þá er Ofelia búin að taka nýfædda bróður sinn inn í völundarhúsið þar sem Pan bíður eftir þeim. Herforinginn kemst að þessu og eltir þau. Hann kemur að þeim og tekur barnið af Ofeliu og drepur hana en þegar hann labbar út úr völundarhúsinu bíða uppreisnarmennirnir hans og drepa hann á hrottafengin hátt.

Guillermo del Toro hefur leikstýrt mörgum myndum, þar á meðal Hell boy, Hell boy II, Blade II og mun leikstýra The Hobbit I og II. Hann er hvað þekktastur fyrir skrímslin eða verurnar í myndunum sínum en El laberinto del fauno og Hell Boy II fengu mörg verðlaun fyrir sviðsmynd og búninga en einn leikari, hann Doug Jones, hefur leikið veru fyrir hann í báðum þessum myndum. Hann lék bæði Pan og skrímslið sem kallast Pale man í El laberinto del fauno og það var sagt að það hafi tekið allt að 10 klst. að koma honum í seinni búninginn.


Princcess Mononoke (Mononoke-hime)(1997)
Myndin var leikstýrð og skrifuð af hinum fræga Japanska leikstjóra Hayao Miyazaki. Ég hef mjög gaman af teiknuðum myndum, anime eins og sumir kalla það, því þar eru engin takmörk. Hvað sem höfundunum/leikstjórunum dettur í hug geta þeir gert. Þessi sérstaka gerð af teiknimyndum heillaði mig alveg upp úr skónum, hvernig þeir teikna smáatriðin í andiltum fólksins, öll þessi smáatriði, allar þessar verur og allar þessar magnþrugnu senur þegar það eru slagsmál eða eitthvað dularfullt að gerast. Ég ætlaði nú ekki að fara mikið meira út í þetta heldur tala meira um myndina. Ég sá fyrst P.M. með ensku tali og síðan með japönsku og enskum texta. Ég veit ekki hvað það er var en myndin breyttist fyrir mér eftir að ég horfði á hana með enskum texta. Það eru ótal mörg flott skot, ef ég má kalla þau skot, í þessari mynd sem grípa mann og magna atriðið svo mikið upp eins og í byrjun þegar eltingaleikurinn er og þegar andi skógarins horfir beint fram að Ashitaka, aðalpersónunni, og það sjást allar línurnar í andlitinu, magnþrungið. Söguþráðurinn grípur mann alveg, sérstaklega með þessu eltingaleik í byrjun. Áhuginn verður mikill eftir örfáar mínútur. Ef ég segi aðeins frá söguþræðinum þá fjallar þessi mynd um strák sem heitir Ashitaka sem býr í þorpi sem á í erfiðleikum. Hann er einn af fáum ungum afkomendum þorpsbúa svo ættbálkurinn er að deyja út. Í þessum heimi eru til dýr sem hafa lifað í mörg ár og geta talað, það mætti segja að þessi dýr séu einhvers konar guðir eða leiðtogar yngri dýranna sem geta ekki talað. Þessi dýr eru tvöfallt eða ekki þrefallt stærri en venjuleg dýr en fyrir mörgum árum, í myndinni, voru til mun fleiri dýr. Það er frekar erfitt að útskýra en þegar þú horfir á myndina skilur þú um leið. Ashitaka verður fyrir því óhappi að komast í snertinu við djöful, sem var eitt sinn villigaltarguð, þegar hann drepur hann. Hann fer því frá þorpinu sínu í leit að anda skógarins í þeim tilgangi að hann lækni hann því sá andi hefur þann mátt að geta veitt líf og tekið það . Á ferð sinni hittir hann úlfaprinsessuna San og úlfafjölskylduna hennar, þar sem mamman er guð og yrðlingarnir hennar eru minni en hún en samt nógu galmir. Einnig hittir hann lafði Aboshi úr Járnborg og eitthvað af íbúum hennar. Því lengra sem líður af myndinni því verra verður sárið eftir djöfulinn, sárið sem er að breyta honum í djöful hægt og rólega. Í myndinni er mikill boðskapur um mengun og hvernig menn eiga að geta lifað í sátt og samlyndi við dýrin og náttúruna en í endan ákveður fólkið að hætta að menga og lifa í friði með náttúrunni.


Hayao Miyazaki er mikill meistari og minn uppáhalds leikstjóri teiknimynda en hann hefur gert heimsfrægar myndir á borð við Spirited away, Nausicaä og Laputa: Castle in the sky en hann er búinn að gera nýja mynd sem heitir Ponyo. Hún kom út á japönsku 2008 en kom út í ágúst 2009 í Bandaríkjunum með ensku tali.



Schindler's List (1993)

Sögutíminn er seinni heimsstyrjöldin og aðalpersónan, Oscar Schindler, er leikinn af Liam Neeson, frábær leikur hjá honum. Þetta er sönn saga um þýskan athafnamann sem ætlar í byrjun að græða ódýru vinnuafli frá Nasistunum, þ.e.a.s. gyðingarnir, en endar með að koma út úr stríðinu og miklu tapi og bjarga rúmlega 1000 gyðingum frá því að vera drepnir í útrýmingabúðum. Þessi mynd sínir það að ekki allir Þjóðverjar voru vondir nasistar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, að það býr gott í öllum. Í enda myndarinnar er sýnt frá því þegar þeir gyðingar sem voru enn lifandi og afkomendur fóru að gröf Oscars og settu allir hvítan stein á legsteinin hans sem var láréttur. Löng röð af fólki sem heiðraði minningu mannsins sem hafði bjargað lífi þeirra, fallegt atriði og góð myndataka. Annars er myndatakan í myndinni mjög flott. Sum skot er maður alveg orðlaus yfir. Myndin er öll svart/hvít og það koma skot inn á milli þar sem ákveðinn hlutur eða ákveðin fatnaður á persónu er í lit og það oftast er liturinn rauður. Einnig var það tónlistin í myndinni sem hreif mig. Það eru mörg atriði í myndinni sem verða mun flottari bara út af tónlistinni, sérstaklega þegar konurnar fara inn í klefann í Auswitch sem er sturtu- ekki gasklefi. Við svona mynd, þar sem söguþráðurinn grípur þig alveg, er ekki hægt að setja mikið út á. Enginn annar en Steven Spielberg leikstýrði myndinni en hann er virtur maður í kvikmyndabransanum. Hann hefur leikstýrt myndum eins og Saving Private Ryan, öllum fjórum Indiana Jones myndunum og E.T.: The Extra-Terrestrial en allar þessar myndir eru frábærar að mínu mati. Sú fyrsta og síðasta eiga heima á topp 20 listanum mínum.


Gladiator (2000)
Öll höfum við séð myndina um herforingjann í Rómverska hernum á tímum Markúsar Árelíusar. Þegar sonur hans Markúsar, Commodus, kemst að því að faðir hans hafi valið Maximus, herforingjan, til að erfa ríki sitt eftir dauða sinn þá svíkur Commodus föður sinn, drepur hann og dæmir Maximus til dauða en sleppur með naumindum. Commodus lætur drepa fjölskylu hans Maximusar og það endar þannig að Maximus verður að þræl og síðan að skylmingaþræl. Þegar hann hefur lifað af að fara nokkrum sinnum inn á leikvang skylminganna er hann sendur til Rómar ásamt öðrum góðum skylmingaþrælum til að skemmta íbúum Rómar. Þar hittir hann aftur Commodus og eftir nokkur skipti að berjast í Colosseum, þar sem hatrið eitt á Commodus hefur haldið honum á lífi, hefur hann unnið hug og hjörtu íbúa Rómaborgar. Myndin endar svo á þann epíska hátt að Commodus mætir Maximus í hringnum þar sem þeir báðir deyja en aðeins Maximus er borinn burt frá leikvanginum. Hér, eins og í Schindler’s list, spilar tónlistin mikilvægt hlutverk. Þau atriði þar sem ekkert er sagt og það sést hversu flott atriðið er setur tónlistin alltaf punktin yfir I-ið. Mörg atriði eru glæsileg, þar sem kvikmyndatakan er flott og tónlistn í takt við hana, en byrjunar atriðið, bardaginn í Germaníu, eitt af flottustu atriðunum í myndinni. Þegar Rómverjarnir eru að skjóta örvum og eldi á Germanina þá kemur Maximus á meðan fyrir aftan þá, alveg að óvörum, en það er gott dæmi um hvernig leikstjórar lengja tíman í myndum bara til að byggja upp spennu. Leikarar myndarinnar sýna afbragðs tilrþrif í myndinni á má þá nefna Russell Crowe, rapparann Joaquin Phoenix og Djimon Hounsou. Af þessum þremur finnst mér Joaquin sýna besta leik í þessari mynd sem hinn alræmdi Commodus. Hann leikur aumingjalegan keisara sem svíkur og svindlar og gerir það með mikilli innlifun. Frábær leikur hjá honum en Russell var einnig býsna góður.

Leikstjóri myndarinnar, Ridley Scott, hefur leikstýrt örðum frægum myndum eins og Alian, Blade Runner og sú nýjasta Body of Lies en allar hafa þær fengið afbragðs dóma frá gagnrýnundum um allan heim.


The Lord of the Rings: The Two Towers (2006)

Mynd sem var gerð eftir samnefndri bók eftir J.R.R. Tolkien, leikstýrð af Peter Jackson sem auk þess sá um eitthvað af handritsgerð. Þetta er framhalds mynd, eins og flestir vita, og eftir hana kemur síðasta myndin í LotR þríleiknum. Myndin er algjört meistaraverk og sama mætti segja um hinar tvær myndirnar en það sem hún hefur umfram hinar tvær er það hvar við erum stödd í sögunni. Loksins er stríðið um hringinn mikla að byrja. Mikil orrusta fer fram á milli Úrúk-haia og manna og álfa, þar sem álfarnir kom til að aðstoða mennina á ögur stundu. Þrátt fyrir mikla orrustu og flott bardagaatriði er flott saga á meðan þar sem Fróði og Sámur eru leiddir af Gollum í átt að Mordor og þeir Kátur og Pípinn sem sitja á baki Trjáskeggs og ná að koma með entunum að Hjálmsdýpi. Í fyrri myndinni er glæsileg myndataka sem og í hinum myndunum en það flotta við fyrstu myndina er hvernig Peter blekkir áhorfandann með því að stilla persónum fjær og nær linsu þannig þær líta út fyrir að vera stórar og litlar, notar þetta mikið í atriðum með hobbitum, en síðan er hann auðvitað líka með leikara sem eru dvergvaxnir fyrir atriði þar sem sést ekki í andlitið á hobbitanum. En það sem vantar í fyrstu myndina er meira action, allavega í minningunni. Ég gæti verið að skrifa tóma steypa en svona er það bara. Síðan er það sem mér fannst gallinn við síðustu myndina er hvað hún er bara einn stór bardagi, nánast. Það er flott og allt það en ég veit ekki alveg með það. Án efa stærsti plúsinn við þá mynd, að mínu mati, eru allar þessar klikkuðu ræður fyrir bardaga. Besta ræðan, og örugglega á topp 3 listanum mínum yfir bestu ”fyrir bardaga” ræðum, er ræðan sem Þeoden, konungur Rohan, heldur fyrir menn sína fyrir bardagann á móti her Saurons fyrir fram Minas Tirith, hrein og tær hetjuræða. Svipað atriði er í Two Towers, þegar öll von virðist úti, þegar Úrúk-haiarnir eru komnir inn í Hjálmsdýpi og reyn að opna síðasta hliðið á virkinu, kemur Gandalf hinn hvíti með menn Rohans og bjargar deginum. Ég hef sjaldan verið jafn glaður í mynd og þá.

Peter Jackson hefur leikstýrt og unnið við handritsgerð af mörgum örðum myndum en þessi þríleikur gerði hann án efa að heimsfrægum leikstjórnanda. Myndir sem hann hefur unnið við eru jafn margar og þær eru misjafnar og má þar telja King Kong(2005), Braindead(1995) og Bad Taste(1987). Allar afbragðs myndir en Braindead er einmitt ein af mínum uppáhalds myndum, mikill svartur húmor í henni. Þess má til gamans geta að Peter hefur leikið eitthvað hlutverk í flestum þeim myndum sem hann hefur leikstýrt, allavega öllum þeim sem ég hef talið hér upp.