Friday, April 16, 2010

Kvikmyndagerð 2009-2010

And so it is..

Nú fer að líða að lokum þessarar bloggsíðu en áður en ég hætti allri starfsemi hér ætla ég að kreista nokkur orð um hvernig mér hefur fundist kvikmyndagerð þennan vetur.

Ég get allavega byrjað á því að vera hreinskilin. Það spilaði stóran hlut af hverju ég valdi þetta fag þegar ég heyrði að maður væri alltaf að horfa á myndir í tíma, ekkert heimanám og engin skyndipróf. Reyndar kom svo í ljós að þetta er ekki eins mikil slökun og heyrist í fyrstu.

Mér finnst eitthvað skrítið við það að mest vinnan fer í bloggin ekki einhver verkefni tengd myndavélinni og klippitölvunni. Mér finnst að það ættu að vera fleiri verkefni tengd þeim tækjum og ekki endilega stór heldur kannski bara taka upp senu í mynd sem Siggi ákveður(mismunandi senur á hópa) og vinna aðeins í því. Þessar bloggfærslur segja ekki neitt hvort ég kann eitthvað í kvikmyndatöku eða handritagerð. Reyndar er eitt gott sem ég tek frá öllum þessum bloggum og þessu fagi. Þegar ég horfi á mynd þá tek ég frekar eftir ”litlu atriðunum” og gagnrýni myndir meira, s.s. lýsingu, tónlist, klippingu og fleiru.... auðvitað eru þetta ekkert ”lítil atriði” en ég kalla þetta bara það.

Siggi Palli varpaði nokkrum spurningum og ég ætla að svara nokkrum þeirra. Með þeim svörum segja meira frá hvernig mér fannst þetta fag ganga í vetur.

Hvað tókst vel og hvað mætti betur fara?

Í byrjun var þetta hnitmiðað og tekið á þessu með hörðum höndum. Þú skipaðir okkur í hópa og við gerðum maraþonmyndina. Eftir hana ýttir þú minna á okkur til að fara í heimildarmyndina og lokaverkefnið. Auk þess varð tímalínan sveigjanlegri svo við fengum tækifæri á því að fresta tökum og allir vita að það er alltaf best að fresta verkefnum. Skil á heimildarmynd þurfa reyndar að vera sveigjanleg en með lokaverkefnið þá finnst mér að þú ættir að vera strangari á sýningardegi og hafa hann fyrr en í ár. Annars fannst mér kennsla í tímum allt í lagi, ekkert æpandi skemmtileg en maður lærir nú eitthvað af þessu öllu saman.

Hvaða hluti námskeiðsins var skemmtilegastur?

Skemmtilegasti hluti námskeiðsins var án efa að kynnast myndavélinni og taka upp. Eins og ég sagði hér að ofan þá finnst mér að það ætti að vera meira af því og minna af bloggi. Jafnvel bæta við einu litlu verkefni sem tengist bæði kvikmyndavélinni og klippingu og á móti minnka stigin í blogginu til þessa að fá 10, jafnvel niður í 60. Ég skil að það að við erum að læra að gagnrýna ”og hugsa út fyrir kassann” með því að blogga en mér finnst að það ætti að vera lögð meiri áhersla á myndavélina.

Hvaða hluta þarf að breyta?

Eins og ég er búin að nefna núna tvisvar þá finnst mér að það ætti að vera fleiri minni verkefni með kvikmyndavélina og klippinguna og bloggið ætti að skipta minna máli. Eða kannsk ekki minna máli heldur fara minni vinna í það(færri en 80 stig til að fá 10 í einkunn).

Siggi Palli nenfdi eitthvað í sinni færslu um að færa kvkikmyndasöguna og tengja hana fyrri fyrirlestrunum. Mér finnst það mjög sniðug hugmynd. Þá mundi nást að fara yfir meira í kvikmyndasögunni og hafa fyrirlestrana þá jafnvel í tímaröð þ.a. hver hópur fjallar um mann sem var áberandi á ákveðnum tíma og seinni hópar fjalla um menn sem voru á eftir honum. Auðvitað er það erfitt að raða þessum mönnum í tímaröð en það sakar ekki að athuga þetta.

Ég gleymi kannski að fjalla um eitthvað í þessari færslu en þetta er allavega það fyrsta sem mér dettur í hug. Eitt áður en ég hætti þá finnst mér að Siggi Palli hafi staðið sig ágætlega í vetur. Reyndar vakti hann ekkert mikin áhuga á sumu efni en það var bara kannski það að maður var búinn að ákveða fyrirfram að efnið væri leiðinlegt. Lokaorðin mín um kvikmyndagerð eru þá bara kannski þessi: Meiri vinna en ég bjóst við en á góðan hátt..

The Godfather: Part III (1990)

Fyrir jól horfði ég á Mario Puzo’s The Godfather(1972) og Mario Puzo’s The Godfather. Part II(1974). Mér leist mjög vel á báðar myndirnar en verð samt að segja að mér fannst fyrri betri. Fyrir stuttu síðan kláraði ég loksins þríleikinn og horfði á Part III sem kom út á því glæsilega ári 1990. Allar myndirnar eru byggðar á bókum eftir Mario Puzo en þær fjalla um guðfeður Corleone ættarinnar. Eins og fyrri tveimur þá leikstýrði Francis Ford Coppola myndinni. Eftir að hafa séð þessar þrjár myndir og Dracula(1992) get ég ekki annað en líkað vel við þennan leikstjóra. Ótrúlegt en satt þá hef ég ekki séð Apocalypse Now, verð að fara sjá hana.


Ég horfði smá af aukaefni og datt á nokkuð sem tengdist handritagerð að myndunum. Francis og Mario unnu saman að handritum myndanna þriggja. Handritið að fyrstu myndinni var eiginlega alveg eftir bókum Marios þó svo að Coppola hafi skrifað meiri hlutann af því. Handritið að annari myndinni er í grunninn líkt og bækurnar en allt annar söguþráður. Nokkur handrit voru svo gerð að þriðju myndinni en flest af þeim líkaði Francis ekki við. Í flestum þeirra kom Michael Corleone ekki til sögu og Francis fannst það sjálfsagður hlutur að þriðja myndin mundi fjalla um don Michael eins og hinar tvær. Að lokum náði hann að fá sínu fram hjá Paramount en hann sagði einmitt í viðtali sem ég sá að Paramount ætti Guðföðurinn og það væri erfitt að sannfæra náungana við stjórn.

Reyndar fann ég eitt enn í þessu auka efni að Mario Puzo hafi alltaf langað að gera fjórðu myndina sem, að hans sögn, mundi fjalla um hvernig Sonny, bróðir Michaels sem lést í fyrstu myndinni, kemst inn í “fjölskylduviðskiptin”. Þá væri Michael aðeins lítill strákur og myndin hefði fjallað um Sonny og Vito. Það væri nú gaman að sjá þá mynd gerð en ansi góð spurning hverjum maður mundi treysta að leika don Vito Corleone. Það tekur ekki hvaða maður sem er að sér það hlutverk. Í annari myndinni lék Robert de Nero hann Vito á sínum yngri árum. Mér fannst hann alveg góður en það vantaði eitthvað fannst mér....örugglega bara það að það kemst enginn með tærnar þar sem Marlon Brando var með hælana þegar hann lék don Vito.

Myndin fjallar um don Michael Corleone á sínum efri árum. Myndin byrjar í kirkju þar sem kaþólska kikrjan er að heiðra don Corleone. Eins og í öllum myndunum, nema kannski örðum hluta, þá byrjar Michael sem góði náunginn í myndinni sem vill gera betur heldur en glæpir og óheiðarleg viðskitpi. Hann er sýndur svipað eins og pabbinn sinn Vito í fyrstu myndinni. Lýsingin á honum í byrjun í herberginu hans er ekki alveg beint á hann heldur sést ýmist illa framan í hann eða ofar heldur en á örðum, sést greinilega. Hann er kominn með sömu takta og pabbi sinn sem hann var ekki alveg búinn að fá í annari myndinni. Hann kemur með setningar eins og aldrei láta neinn heyra hvað þú ert að hugsa og fleiri góðar sem Vito kom með í þeirri fyrri.

Það er greinilega samviskan sem nagar guðföðurinn í gegnum alla myndina. Honum líður mjög illa og skilur ekki hvað hann hefur gert rangt, þ.e. af hverju hata hann svona margir á meðan aðrir guðfeður sem geri sömu vondu hlutina eru elskaðir og dáðir. Í myndinni sést vel að hann vill út úr þessum spillta heimi sem tengist glæpum og vill lifa í friði. En eins og hann segir sjálfur í myndinni:”..they pull me back in..” eftir fjöldamorðið í hótelinu.

Þegar hans loks kom til Sikileyjar og við fáum að vita meira um sögu eyjarinnar þá datt mér í hug Sturlunga. Ættir á einni eyju að berjast sín á milli vegna yfirráða og sæmd. Þeir sem ráða senda aðra til að drepa fyrir sig á meðan þeir fá ekki blóð á sínar hendur.

Myndin endar þar sem Michael Corleone situr einn og yfirgefinn. Enginn er með honum og hann veltur því fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta gat endað svona.

Fyrsta og síðasta myndin eiga það sameiginlegt að þær sína hvernig núverandi guðfaðirinn leiðbeinir þeim sem er líklegast til að taka við af honum. Síðan tekur sá nýi við þegar sá gamli er orðinn of máttvana til að sjórna lengur. Vincent, sonur Sonnys, kemur fyrst fram sem einhver ómerkilegur drengur innan fjölskyldunnar en guðfaðirinn tekur hann undir sinn verndarvæng og kennir honum rétta mannasiði ef svo má koma að orði. Vincent sem er leikinn af Andy Garci (lék í Sherlock Holmes og miklu fleiri myndum) er ungur og reynslulaus en með tímanum verður hann að þessum A-klassa ref. Andy leikur bara mjög vel í þessari mynd og einn af nokkrum leikurum sem stóðu upp úr. Mér fannst Eli Wallach, sem lék Don Altobelli, sýna mjög góðan leik og auðvitað voru Al Pacino og Diana Keaton flott í myndinni. Mér fannst hins vegar Sofia Coppola, dóttir Francis, leika misvel. Hún lék Mary Corleone og maður hefði viljað sjá betri leik frá henni, að mínu mati. Veit ekki hvað það var en eitthvað fór í taugarnar á mér á nokkrum atriðum. Mér fannst hún í byrjun allt í lagi en það komu atriði inn á milli þar sem hún var ekki aaaalveg nógu góð.



Á heildina litið þá fannst mér þessi mynd góð en ekki eins góðar og hinar tvær. Hún var of löng og of hæg. Ég veit ekki hvort það var nauðsynlegt að áhorfandinn fái að vita svona mikið um söguna á bakvið efnið. Þótt Francis leikstýrði öllum myndunum þá var ekki sami bragur yfir þessari. Myndin er samt flott og vel unnin. Tónlistin er hér aftur notuð til að byggja upp dramatík eins og í fyrri myndum, sérstaklega þeirri fyrstu. Eins og ég sagði fyrst er hún of löng. Reyndar eru þær allar það en þessi eru of hæg sem gerir hana lengri fyrir vikið. Síðan koma nokkur byssu atriði inn á milli en þessi mynd er lágstemmd sem er merki um hvernig Micheal vill losna úr þessum heim glæpa því hann reynir með bestu getu að haga sér og gera rétt.

Það er eitt enn sem ég er alveg heillaður af sem er í öllum þremur myndunum. Það er ítalskan. Hún heillar mig alveg upp úr skónum. HÉRNA er svo myndband af einu af tveimur lögum sem einkenna þríleikinn. Hlustið vel á lagið ekki textan. Reyndar er ítalskan guðdómleg í þessu lagi en það er annað.

Grazie – P.S.

Tuesday, April 13, 2010

Me and Bobby Fischer (2009)

Ég vaknaði á sunnudeginum og byrjaði að horfa á sjónvarpið. Þegar ég var að flakka á milli stöðva þá rakst ég á íslenska heimildarmynd um skáksénínn Robert James(eða Bobby) Fischer. Myndin heitir Me and Bobby Fischer og er eftir Friðrik Guðmundsson. Hann sagði sjálfur að það hafi tekið hann tæplega fjögur ár að taka upp og vinna í myndinni. Samkvæmt kvikmynd.is þá er þetta hans fyrsta heimildarmynd en hún var frumsýnd hér á Íslandi vorið 2009 á vegum Græna Ljósins. Ég missti smá af byrjuninni en áttaði mig fljótlega hvað þessi mynd fjallaði um. Í byrjun ætlaði ég alltaf að fara skipta um stöð en ég gerði það ekki, endaði með að horfa á alla myndina.

Myndin fjallar aðalega um Bobby Fischer og skoðanir hans en ásamt honum er Sæmundur Pálsson, betur þekktur sem Sæmi Rokk, í myndinni. Þeir höfðu víst hist um það leiti þegar Bobby kom til landsins að keppa í einvíginu á móti Spassky, árið 1972. Það einvígi var auglýst sem einvígi Kalda stríðsins en það lauk með því að Bobby hrifsaði heimsmeistaratitilinn af Spassky.

Myndin byrjar að renna yfir kalda stíðið og einvígið. Síðan hoppar hún yfir til Japans þar sem Bobby er í fangelsi sem er að hans sögn 66. km frá kjarnorkuveri. Hann blótar öllu í sand og ösku og heimtar að vera færður í annað fangelsi sem er fjær kjarnorkuveri. Hann veit að geislunin af óhappi frá kjarnorkuverinu mundi skaða hann. Friðrik fyglir Sæmundi og nokkrum örðum,þ.á.m. konu Fischers, til Japan þar sem Sæmundur berst fyrir því ná Bobby út úr fangelsi og til Íslands. Loks kemst hann til Íslands þar sem honum er tekið eins og guði og Friðrik fylgir honum þangað til hann deyr.

Myndin er ekkert gíflurlega löng né skemmtileg. Hún er lágstemmd og lítið um að gerast í henni. Annað hvort er Bobby bara að tjá reiði sína og Sæmi að róa hann niður með því að tala um eitthvað jákvætt eða það er myndblöndun(montage) með myndum af honum í og örðu fólki og annað fólk að tala um hann í bakgrunn.... pínu dauft(dull)... en er eitthvað hægt að gera skemmtilega mynd um þennan mann?

Hann var auvitað vitskertur að margra mati á sínum eldri árum og má þar nefna gyðingahatrið hans sem t.d. koma í ljós þegar hann kennir gyðingum um hryðjuverkin 11. september 2001. MYNDBAND AF ÞESSU Á YOUTUBE!

Það fyrsta sem hann byrjar að tala um þegar hann losnar úr fangelsinu er hversu mikið hann hatar Bandaríkin og hvernig þeim mun vera refsað í framtíðinni. Hann talar um hvernig BNA samanstendur af vondum einstaklingum við stjórn en það er ekki þeim að kenna því BNA eru í raun ill í eðli sínu sem rækta af sér vondar persónur. Hann talar um margt fleira í myndinni og Sæmi er alltaf að reyna fá hann til að tala um eitthvað jákvæðara eins og hvernig er að vera frjáls, hvernig honum líki Ísland og hvetur hann til að sjá góðu hliðina á málunum sem Bobby oftar en ekki sér EKKI.


(Það mætti segja að ró Sæma hafi jafnað reiði Bobbys út)

Mest alla myndina er hann Bobby mjög reiður og pirraður út í lífið, sér bara eina hlið á öllum málum. Seinna í myndinni byrjar hann að tala um hvað honum langaði alltaf til að verða, leikari. Hann talar um hvað leikarar eru skemmtilegir og opnir en honum líkar ekki við skákmenn. Hann segir, og það næstum orðrétt að þeir eru: “ ..petty, small-minded, angry.......I dislike chess players..”. Þessi orð lýsa nákvæmlega honum sjálfum eða allavega þeirri mynd sem áhorfandi myndarinnar fær af honum, frekar fyndið. Þessi orð eru allavega það sem ég man best úr myndinni.

Sjálf myndin er mjög íslensk, lýsingin, myndatakan, allt saman. Ég veit ekki hvað það er en það er eitthvað svo íslenskt við það. Það er greinilegt að það fór mikil vinna í myndina og það hefur tekið mikinn tíma að ná öllu þessum skotum en samt truflar myndatakan mig mest allan tíman. Ég áttaði mig ekki fyrir en eftir myndina að myndatakan átti alltaf að vera svona sérstök. Hún átti að ýta undir hvað Bobby væri í raun sérstakur og skrítinn kall sem lifði á fornri frægð. Ég tók ekkert mikið eftir tónlistinni heldur var hún ekkert áberandi. Vitölin voru á hinum ýmsu stöðum, t.d. í herbergi, í flugvél og í bíl. Það voru sérstaklega skotin í bílnum sem fóru í taugarnar á mér þegar Bobby er að tala um að eina ástæðan sem honum líkar fullkomlega við Ísland er sú að eyjan er of nálægt Bandaríkjunum. Hann nefnilega heldur því fram að Bandaríkin munu einn daginn verða fyrir árás og kjarnorkusprengjur verða sprengdar þar en hann er hræddur um að geislavirkni frá Bandaríkjunum gæti skaðað hann og allt Ísland. Myndatakan í þessari senu eru pínu skjálfhent ýtir undir það sem ég sagði hérna fyrir ofan.

Það sem ég tek frá þessari mynd er hvað Bobby var orðinn ruglaður þegar leið að lokum.

Wednesday, March 31, 2010

Earth (2007)

Ég fór á myndina Earth (2007) með Reyni í gær. Hún er sýnd á vegum græna ljósins sem hefur þær reglur að myndir munu byrja á réttum tíma, ekki verður hleypt inn á meðan myndin er sýnd og ekkert hlé verður á myndinni. Græna ljósið braut allar reglurnar sínar í gær með því að byrja myndina 25 mínútum of seint, fólk var samt sem áður að koma of seint á myndina OG það var hlé á henni. Græna ljósið er greinlega að standa fyrir sínu..

Þessi mynd var unnin af BBC í samstarfi við Disney og fleira. BBC hafa nú komið að gerð margar náttúrulífsþáttaraða og vita alveg hvernig á að gera þetta, hvernig skot eru áhrifaríkust og flottust en auðvitað snýst þetta mikið um heppni og þolinmæði við að ná réttu skotunum af dýrum.

Þessi mynd fjallar aðalega um þrjár “fjölskyldur”; kvenskyns ísbjörn og tvo húnana hennar, fílahjörð með litlu sætu fílsungana sína og kvenkyns hval og litla ungan hennar. Þessi mynd fjallar um þessar fjölskyldur og ferðalög þeirra í leit að æti ásamt því að fjalla um skóga jarðarinnar og sína mönnunum hvernig heilu vistkerfin geta fallið við hlýnun jarðar. Þetta er heimildarmynd sem er fræðandi um bæði dýr og það sem er að gerast á plánetunni. Hún var gefin út árið 2007 eftir að BBC kláraði framleiðslu á þáttunum Planet Earth (2006). Ég er búinn að sjá eitthvað af þessum þáttum og veit með vissu að sumt af myndefninu sem ég sá í Regnboganum er úr þáttunum.

Þessi mynd er stútfull af flottum og alveg hreint ótrúlegum skotum af dýrum og hvað þau eru að gera. Mjööög mörg skot eru tekin hægt og dramatísk/spennu-tónlist er sett undir, einum of oft að mínu mati. Ég verð að segja að ég bjóst við betri mynd, ég veit ekki af hverju. Þetta “hlýnun jarðar, við verðum að gera eitthvað” fór frekar í taugarnar á mér, ég verð bara að segja satt. Þó að þetta sé kannski satt þá trúi ég því varla að þetta sé svona dramatíkst eins og myndin sínir þetta. Síðan í endan á myndinni koma 2 mín þar sem fjallað eru um hvernig ákveðin vistkefi er í hættu og síðan er sagt:”What can you do?”.. lætur alla í salnum fá samviskubit í svona 20 mínútur sem síðan gleyma þessu og halda áfram að menga og gera allt slæmt á jörðinnni...ææi, ekki meiri predikanir.

Þegar ég lít til baka á þessa mynd vil ég frekar einblína á fræðandi þáttinn. Þessi mynd er mjög flott og vel unnin. Hljóðið í henni er alveg hreint magnað í maður fann það í bíósalnum að dýrin umkringdu mann og maður var bara í Afríku þar sem ljónin sátu um fílahjörðina á næturna. Mjög flott. Síðan er nokkur atriði af þessum skrítnu dýrum sem eru í öllum náttúrulífsþáttum, dýr sem eru örðuvísi og hegða sér skringilega þegar kemur að makavali og fæðuleit. Það eru alltaf svona atriði í hverjum þáttaröðum. Salurinn fór allur að hlæja. Annað sem vantaði ekki voru skot þar sem myndavélin var kjurr í nokkra daga og sýndi hvernig blómin, laufblöðin og allt annað óx. Mjög flott skot. Síðan voru enn flottari skot sem ég hef ekki séð áður, mig minnir. Þau voru mjög svipuð nema myndavélin var á hægri ferð á meðan. Ég var lengi að velta því fyror mér hvernig er náð þessum skotum. Er myndavélin færð millímetra á klst. og það gert í nokkra daga? Skotiða þar sem kameran var á ferð og grasið byrjaðu að vaxa og náði að lokum yfir hana og allt í kringum, thumbs-up!

Ég áttaði mig á því að það nægir alveg að horfa 40-60 mínútur í senn á svona náttúrlífsmynd. Þættirnir eru gott dæmi um það, halda athygli áhorfandans. Þessu mynd fannst mér eiginlega of löng þó svo að manni hefði langað að vita meira, erfitt að útskýra þetta. Myndin heillaði mig ekki alveg upp úr skónum eins og ég vonaðist. Það var kannski bara það, ég var með of miklar væntingar. Annars var þessi mynd mjööög flott í alla staði. Hljóðið í dýrunum, hægu tökurnar að dýrum að veiða.. epískt. Á heildina litið var þetta alveg fín mynd, ekkert meira né minna.

Hérna er trailerinn að myndinni en þið ættuð að þekkja lagið í honum. Gaurinn sem talar í trailernum, James Earl Jones , sá sami og tala fyrir Darth Vader í Star Wars, er ekki sögumaðurinn í myndinni. Hann er Patrick Stewart, Professor X í X-Men, sem segir mér að ég hafi séð ensku útgáfuna af myndinni.



Police Story (1985)

Ég misstir af annari mynd í tíma um daginn. Húin heitir Ging chat goo si eða Policy Story (1985). Ég ætla að greina frá sögurþræði, fjalla aðeins um myndina og leiksjórann sjálfan, Jackie Chan.


Ging chat goo si (1985)




Police story fjallar um Chan Ka-Kui(Kevin Chan), leikinn af Jackie Chan, sem er lögreglumaður í Hong-Kong. Honum tekst það að nú niður einum stærsta glæpakóng Hong Kong og það nánast á eigin spítur. Þegar glæpakóngurinn, Chu Tao, sér lögguna leggur hún flótta. Þegar maður horfir á fyrstu 20 mínúturnar af þessari mynd þá veit maður að þetta verður skemmtileg mynd. Eltingaleikurinn í byrjun er ómóstæðilegur ef svo má taka til orða. Þegar þeir keyra í gegnum fátækrahverfið og rústa öllu sem hægt er.. þetta hlýtur af hafa kostað sitt þessi eltingaleikur. Þetta veldur allavega því að áhorfandinn verður strax spenntur yfir þessari mynd. Eltingaleikurinn endar með því Chan nær kóngnum og honum er stungið í fangelsi. Chan er skammaður fyrir léleg vinnubrögð en samt sem áður hrósað. Næsta verkefni hjá honum er að vernda ritara Chu Tao. Hún er lykillinn þeirra til að halda Tao í fangelsi, hún ætlar að bera vitni gengn honum um þá glæpastarfsemi sem er búin að vera í gangi í kring um hana. Chan platar hana svo hún verður samvinnufús. Eitt kvöld er ráðist á þau og þau sleppa með naumindum, reyndar eyðilegst bílinn hennar alveg og einhvern vegin endar hún á undirfötunum einum. Chan fer með hana upp í sína íbúð þar sem kærastan hans og fleiri bíða eftir honum með köku, óvænt afmæli. Kærastan hans mistúlkar þetta alveg og allt fer upp eld áður en Chan nær að útskýra hvað er að gerast. Á meðan er Tao sleppt úr fangelsi vegna fárra sönnunargagan. Hann hefnir sín á Chan með því að drepa lögreglumann og lætur það líta út eins og Chan hafi gert það. Nú er Chan á flótta undan löggunni og á sama tíma að reyna að sættast við kærustuna (bráðdyndin saga). Loka senan er svo sú besta í myndinni þegar Chan, Tao, ritarinn og fleiri lögreglumenn eru öll stödd í verslunarmiðstöð. Þessi sena er svo fyndin og flott að maður nær varla orðum yfir það. Þetta er sena sem einkennir Jackie Chan algjörlega, hann einn að berjast á móti 20 bófum, stökkvandi niður nokkrar hæðir og bjargar sér með því að grípa í eitthvað (súlu með ljósaperum á) og rennur sér niður. Hasar, kímni, ást og svik...hvað meira viltu?


Þessi mynd heillaði mig alveg upp úr skónum með öllum þessum bardagaatriðum og hasarsenum. Hún var í þokkabót mjög fyndin og skemmtileg. Þetta voru ekki alveg þessiarklassísku Rush Hour/Jackie Chan senur, bara mikli mikli betri. Rush Hour er bara prump og vitleysa miðað við þessa mynd. Það eina sem angraði mig var helvítis talið. Ég sótti þessa mynd og því miður var hún á ensku tali. Það var næstum búið að eyðileggja myndina fyrir mér en ég horfði á lokin á youtube þar sem ég fann síðasta hlutann af henni með upprunalega talinu, svo miklu betra. Bandaríska dubb-ið var alveg ömurlegt og ég held að flestir væru sammála ef þeir mundu heyra það, allavega útgáfan sem ég sótti. Ég nennti ekki að sækja myndina aftur og lét þetta bara nægja. Þetta tal var slæmt en sem betur fer eyðilagði það ekki þessa skemmtilegu mynd fyrir mér.

Það sem mér fannst ótrúlegt við þessa mynd voru öll áhættuatriðin sem Jackie Chan lék sjálfur í. Það er u nokkur atriði þar sem Jackie er að leika áhættuleik og það verulega háskafullan. Ef þau atriði hefðu farið eitthvað úrskeiðis hefði það endað illa, jafnvel með dauðsfalli, en Jackie Chan er bara þessi gaur sem gerir sín eigin áhættuatriði og lifir á yrstu nöf. Hann leikstýrði bæði þessari mynd og Police Stories 2. Hann lætur ljós sítt skína í gegnum háskaleik og fíflaskap í þessum báðum myndum. Ég er reyndar ekki búinn að horfa á Police Stories 2 alla en þær mínútur sem ég sá af henni voru skemmtilegar. Mig grunar samt að hún sé lélegri, það verður oft þannig með gaman/hasarmyndir.. Ekki kannski gott dæmi en bara dæmi um þetta er Rush Hour 1, alveg fín og síðan allar hinar tómur skítur.


Ég mæli hiklaust með þessari mynd. Hún höfðar mjög líklega betur til stráka en allir ættu að geta skemmt sér yfir henni. Meðan ég man, HORFIÐ Á HANA MEÐ UPPRUNALEGA TALINU!


The Good Heart (2009)

Ég komst ekki með á hópferðina á Good Heart svo ég fór á hana með bróður mínum.

The Good Heart (2009)

The Good Heart er mynd úr smiðju Íslendingsins Dag Kára, en hann er sennilega þekktastur fyrir mynd sína Nóa Albínóa. Myndin er tekin upp á Íslandi, New York og Dóminíska lýðveldinu. Dagur Kári semur handritið auk þess að leikstýra. Dagur ásamt hljómsveit sinni Slowblow sér um tónlistina í myndinni. Myndin gerist í New York og fjallar um heimilslausan dreng, Lukas sem leikinn er af Paul Dano, og bareigandann Jasques, sem leikinn er af Brian Cox. Í byrjun fáum við að kynnast karakterunum í sínum aðstæðum. Lukas er heimilslaus og býr í pappakassa í hættulegu hverfi á meðan Jasques sýnir á sér súrar og leiðinlegar hliðar sem ötull bareigandi. Skyndilega skarast leiðir þeirra þegar þeir lenda saman á spítala. Jasques fær hjartaáfall á meðan Lukas hafði reynt að taka eigið líf. Þá hefst myndin fyrir alvöru og á milli þeirra hefst sterk vinátta. Jasques leitar Lukas uppi eftir að hann er útskrifaður og vill taka hann að sér, með það fyrir augum Lukas geti tekið við barnum eftir hans dag. Fer þá af stað þjálfunarferlið og styrkist vináttan á milli þeirra.

Sagan fer svo í háaloft þegar flughrædda flugfreyjan April mætir á svæðið. April kemst mitt á milli þeirra félaga og neyðir þá til að taka afstöðu gegn hvorum öðrum. April er gegnumgangandi mest pirrandi karakterinn í myndinni. Maður fær alveg upp í kok yfir því hvernig hún er og hvernig hún nýtir sér góðmennsku Lukas. Þau Lukas giftast og þetta „samband“, ef samband má kalla, gengur ágætlega þangað til Lukas rekur hana út eftir að honum fannst hún og Gleðigjafinn verða full nærgöngul. Við þetta verður ákveðinn fasbreyting á Lukas sem hættir að vera þessi vingjarnlegi og ljúfi strákur og verður hann mun fýldari. Jasques viðurkennir svo að April hafi verið farin að vaxa í áliti hjá honum enda hörð og kaldryfjuð stelpa.

Jasques fær enn og aftur hjartaáfall og fer uppá spítala. Hann fær þær fréttir að ætli hann að lifa eitthvað lengur þurfi hann á líffæragjöf að halda, þ.e. nýtt hjarta. Þarna sjá glöggir strax tengninuna að hann muni á endanum fá hjartað hans Lukasar, en hann hafði af þakklæti sínu boðist til að skrá sig á lista yfir líffæragjafa, þegar hann útskrifaðist af spítalanum eftir sjálfsmorðstilraunina. Þá var í raun bara að bíða eftir því að sjá hvernig Lukas myndi deyja og gerðist það snöggt þegar hann var að elta strokuöndina, í annað skiptið í myndinni. Bíll kemur askvaðandi og keyrir á Lukas sem deyr heiladauða, sem verður til þess að hægt er að nota líffærin hans. Það er því kannski svoldið kaldhæðið að öndin hafi verið valdur af dauða hans, en hún hafði átt að vera jólamatur þeirra félaga löngu áður. Þá var það Jasques sem stöðvaði það, en hann hafði orðið mildari og blíðari eftir síðustu spítalaheimsókn.

Ég verð að segja að þrátt fyrir fyrirsjáanlegt plot þá hafði ég mjög gaman af þessari mynd. Mér fannst Paul Dano og Brian Cox skila hlutverkum sínum á frábæran hátt, og leikkonan sem lék April tókst líka svona vel til að vera óþolandi. Myndin er virkilega flott og litlir og hráir litir gefa ótrúlega góða mynd af stemningunni sem myndast á skítugum börum New York borgar.

Memories of Murder


Ég missti af einni mynd í tíma fyrir nokkrum vikum síðan. Hún heitir Salinui chueok eða Memories of Murder (2003). Ég ætla fjalla stuttlega um hana.


Salinui chueok (2003)


Memories of Murder fjallar um lögreglumennina Park Doo-Man, Cho Yong-koo og Seo Tae-Yoon. Önnur falleg stelpa er fundin dáin í héraði í Suður-Kóreu eftir að henni hafi verið nauðgað og skilin eftir með nærbuxurnar í kjaftinum. Park og Cho eru tveir lögreglumenn frá héraðinu sem beita óhefðbundnum og lélegum aðferðum til að rannasaka málið. Þeir eru þekktir fyrir að pynta og lemja fólkið sem það yfirheyrir til að fá út úr þeim játningu, þó svo fólkið sé saklaust og eigi mikið betra skilið. Eftir að fleiri lík af stelpum finnast þá er lögreglumaður úr borginni kallaður inn í málið. Hann er á móti þessum aðferðum sem mennirnir beita en í lok myndarinnar er hann orðinn jafn spilltur og þeir sjálfir, næstum búinn að drepa saklausan borgara. Myndin endar svo á tvíræðum endi en ég ætla ekki að segja mikið meira frá söguþræðinum því ég vil ekki spoila henni alveg. Hins vegar ælta ég að tala aðeins betur um hana og nokkur atriði í henni.

Myndin er leikstýrð af Joon-ho Bong en hann hefur gert fleiri myndir á borð við Gwoemul (The Host, 2006) sem vann til nokkra verðalauna á mismunandi hátíðum og Flandersui gae (Barking Dogs Never Bite, 2000) sem er frekar trufluð mynd að sögn Arnórs og Óla því þeir héldu ágætis fyrirlestur um þennan frábæra leikstjóra.


Myndin er frekar óvenjuleg að því leiti að maður fær aldrei að vita nógu mikið. Líka þegar maður heldur að þeir séu búnir að finna sökudólginn þá gerist eitthvað annað. Mér fannst þessa mynd mjög flott að því leiti og heldur áhuga miklum, allavega hjá mér. Þessi mynd var mjög flott að flestu leiti. Það sást greinilega að hún var mjög vel unnin og mikil vinnsla fór í að finna rétta umhverfið og allt sem tengist því að gera það sem fullkomnast. Nokkur atriði í myndinni eru alveg hreint eins og málverk en gott dæmi um það er síðasta sena myndarinnar. Á tíma fór myndin frekar í taugarnar á mér, sérstaklega spilltu lögreglumennirnir í héraðinu. Þegar þeir voru að yfirheyra eða tala við saklaust fólk þá byrjuðu þeir bara að lemja og sparka í það þangað til þau sögðu þeim það sem þeir vildu heyra. Fólkið reyndi bara að tala við þá en það gekk ekkert. Tónlistin í myndinni var mjög flott og byggði upp spennu í svo mörgum atriðiðum. Mynd er heilt yfir mjög flott spennu/hasar/drama mynd með mörgum flottum atriðum og sérst0kum tökum.


Boðskapur myndarinnar er kannski sá að maður finnast ekki alltaf það sem maður leitar að. Maður verður alltaf fyrir vonbrigðum og kemst ekki alltaf að svari. Þessi mynd er einnig mikil ádeila á stjórnvöld, líklegast þá í Suður-Kóreu, og réttarkerfið. Það er spillt og þó svo það eru til menn sem vilja breyta til þá þarft meira en nokkra til að fá fram breytingum.


Hérna er trailerinn að henni. Mjög drungalegur og flottur!