Friday, April 16, 2010

The Godfather: Part III (1990)

Fyrir jól horfði ég á Mario Puzo’s The Godfather(1972) og Mario Puzo’s The Godfather. Part II(1974). Mér leist mjög vel á báðar myndirnar en verð samt að segja að mér fannst fyrri betri. Fyrir stuttu síðan kláraði ég loksins þríleikinn og horfði á Part III sem kom út á því glæsilega ári 1990. Allar myndirnar eru byggðar á bókum eftir Mario Puzo en þær fjalla um guðfeður Corleone ættarinnar. Eins og fyrri tveimur þá leikstýrði Francis Ford Coppola myndinni. Eftir að hafa séð þessar þrjár myndir og Dracula(1992) get ég ekki annað en líkað vel við þennan leikstjóra. Ótrúlegt en satt þá hef ég ekki séð Apocalypse Now, verð að fara sjá hana.


Ég horfði smá af aukaefni og datt á nokkuð sem tengdist handritagerð að myndunum. Francis og Mario unnu saman að handritum myndanna þriggja. Handritið að fyrstu myndinni var eiginlega alveg eftir bókum Marios þó svo að Coppola hafi skrifað meiri hlutann af því. Handritið að annari myndinni er í grunninn líkt og bækurnar en allt annar söguþráður. Nokkur handrit voru svo gerð að þriðju myndinni en flest af þeim líkaði Francis ekki við. Í flestum þeirra kom Michael Corleone ekki til sögu og Francis fannst það sjálfsagður hlutur að þriðja myndin mundi fjalla um don Michael eins og hinar tvær. Að lokum náði hann að fá sínu fram hjá Paramount en hann sagði einmitt í viðtali sem ég sá að Paramount ætti Guðföðurinn og það væri erfitt að sannfæra náungana við stjórn.

Reyndar fann ég eitt enn í þessu auka efni að Mario Puzo hafi alltaf langað að gera fjórðu myndina sem, að hans sögn, mundi fjalla um hvernig Sonny, bróðir Michaels sem lést í fyrstu myndinni, kemst inn í “fjölskylduviðskiptin”. Þá væri Michael aðeins lítill strákur og myndin hefði fjallað um Sonny og Vito. Það væri nú gaman að sjá þá mynd gerð en ansi góð spurning hverjum maður mundi treysta að leika don Vito Corleone. Það tekur ekki hvaða maður sem er að sér það hlutverk. Í annari myndinni lék Robert de Nero hann Vito á sínum yngri árum. Mér fannst hann alveg góður en það vantaði eitthvað fannst mér....örugglega bara það að það kemst enginn með tærnar þar sem Marlon Brando var með hælana þegar hann lék don Vito.

Myndin fjallar um don Michael Corleone á sínum efri árum. Myndin byrjar í kirkju þar sem kaþólska kikrjan er að heiðra don Corleone. Eins og í öllum myndunum, nema kannski örðum hluta, þá byrjar Michael sem góði náunginn í myndinni sem vill gera betur heldur en glæpir og óheiðarleg viðskitpi. Hann er sýndur svipað eins og pabbinn sinn Vito í fyrstu myndinni. Lýsingin á honum í byrjun í herberginu hans er ekki alveg beint á hann heldur sést ýmist illa framan í hann eða ofar heldur en á örðum, sést greinilega. Hann er kominn með sömu takta og pabbi sinn sem hann var ekki alveg búinn að fá í annari myndinni. Hann kemur með setningar eins og aldrei láta neinn heyra hvað þú ert að hugsa og fleiri góðar sem Vito kom með í þeirri fyrri.

Það er greinilega samviskan sem nagar guðföðurinn í gegnum alla myndina. Honum líður mjög illa og skilur ekki hvað hann hefur gert rangt, þ.e. af hverju hata hann svona margir á meðan aðrir guðfeður sem geri sömu vondu hlutina eru elskaðir og dáðir. Í myndinni sést vel að hann vill út úr þessum spillta heimi sem tengist glæpum og vill lifa í friði. En eins og hann segir sjálfur í myndinni:”..they pull me back in..” eftir fjöldamorðið í hótelinu.

Þegar hans loks kom til Sikileyjar og við fáum að vita meira um sögu eyjarinnar þá datt mér í hug Sturlunga. Ættir á einni eyju að berjast sín á milli vegna yfirráða og sæmd. Þeir sem ráða senda aðra til að drepa fyrir sig á meðan þeir fá ekki blóð á sínar hendur.

Myndin endar þar sem Michael Corleone situr einn og yfirgefinn. Enginn er með honum og hann veltur því fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta gat endað svona.

Fyrsta og síðasta myndin eiga það sameiginlegt að þær sína hvernig núverandi guðfaðirinn leiðbeinir þeim sem er líklegast til að taka við af honum. Síðan tekur sá nýi við þegar sá gamli er orðinn of máttvana til að sjórna lengur. Vincent, sonur Sonnys, kemur fyrst fram sem einhver ómerkilegur drengur innan fjölskyldunnar en guðfaðirinn tekur hann undir sinn verndarvæng og kennir honum rétta mannasiði ef svo má koma að orði. Vincent sem er leikinn af Andy Garci (lék í Sherlock Holmes og miklu fleiri myndum) er ungur og reynslulaus en með tímanum verður hann að þessum A-klassa ref. Andy leikur bara mjög vel í þessari mynd og einn af nokkrum leikurum sem stóðu upp úr. Mér fannst Eli Wallach, sem lék Don Altobelli, sýna mjög góðan leik og auðvitað voru Al Pacino og Diana Keaton flott í myndinni. Mér fannst hins vegar Sofia Coppola, dóttir Francis, leika misvel. Hún lék Mary Corleone og maður hefði viljað sjá betri leik frá henni, að mínu mati. Veit ekki hvað það var en eitthvað fór í taugarnar á mér á nokkrum atriðum. Mér fannst hún í byrjun allt í lagi en það komu atriði inn á milli þar sem hún var ekki aaaalveg nógu góð.



Á heildina litið þá fannst mér þessi mynd góð en ekki eins góðar og hinar tvær. Hún var of löng og of hæg. Ég veit ekki hvort það var nauðsynlegt að áhorfandinn fái að vita svona mikið um söguna á bakvið efnið. Þótt Francis leikstýrði öllum myndunum þá var ekki sami bragur yfir þessari. Myndin er samt flott og vel unnin. Tónlistin er hér aftur notuð til að byggja upp dramatík eins og í fyrri myndum, sérstaklega þeirri fyrstu. Eins og ég sagði fyrst er hún of löng. Reyndar eru þær allar það en þessi eru of hæg sem gerir hana lengri fyrir vikið. Síðan koma nokkur byssu atriði inn á milli en þessi mynd er lágstemmd sem er merki um hvernig Micheal vill losna úr þessum heim glæpa því hann reynir með bestu getu að haga sér og gera rétt.

Það er eitt enn sem ég er alveg heillaður af sem er í öllum þremur myndunum. Það er ítalskan. Hún heillar mig alveg upp úr skónum. HÉRNA er svo myndband af einu af tveimur lögum sem einkenna þríleikinn. Hlustið vel á lagið ekki textan. Reyndar er ítalskan guðdómleg í þessu lagi en það er annað.

Grazie – P.S.

1 comment:

  1. Sammála því að de Niro kemst ekki alveg með tærnar þar sem Brando er með hælana. Svo má ekki gleyma því að Brando skapar karakterinn í fyrstu myndinni, og mikið af því sem de Niro gerir í annarri myndinni er bara eftirherma.

    Fín færsla. 9 stig.

    ReplyDelete